Komdu hugmyndum þínum í framkvæmd

Á hverjum degi fær meðalmaður þúsundir hugmynda og tekur ótal ákvarðanir. Í flestum tilvikum gerist þetta ómeðvitað en öðru hvoru fáum við hugmyndir sem skjóta rótum í huga okkar og vekja okkur til umhugsunar. Meðalmaður fær 2-3 góðar viðskiptahugmyndir á ári og sumir fá miklu fleiri en það. En hugmynd er bara hugmynd og gerir í sjálfu sér ekki mikið fyrir okkur. Það er langur vegur frá því að fá góða hugmynd og að koma henni í framkvæmd.

businessideas2

Albert Einstein hefði til að mynda ekki komið fram með afstæðiskenninguna ef hann hefði ekki skrifað niður og unnið áfram með þær hugmyndir sem hann fékk. Edisson hefði ekki fundið upp ljósaperuna ef hann hefði ekki komið hugmyndum sínum í framkvæmd.

Á þeim tímapunkti, þegar kemur að því að framkvæma, stoppa flestar hugmyndir. Eftir stutta umhugsun eru góðar hugmyndir farnar að ógna okkar vanabundna lífi. Þær gera kröfur til okkar um að breyta af vananum og fara að gera eitthvað sem við erum ekki vön að gera. Þær krefjast af okkur að fara út úr okkar örugga lífi og fara að kljást við markaðsöfl og réttlæta allt sem við gerum. Staðreyndin er sú að þegar fólk fær viðskiptahugmynd er raunin oft sú að margir aðrir hafa fengið nákvæmlega sömu hugmynd án þess að hafa framkvæmd hana af ótta við þær áskoranir sem þarf að takast á við framkvæmd þeirra.

Rétt í þann mund sem góðar hugmyndir koma í huga okkar lenda þær því fljótlega í geymslu minninga og daga þar uppi og falla á endanum í eilífðarbrunn gleymskunnar. Oft hefur það gerst að í dánarbúum hafa fundist lýsingar á hugmyndum sem á sínum tíma voru langt á undan sinni samtíð. Stundum hugmyndir sem skiluðu þeim sem komu þeim seinna í framkvæmd álitlegum gróða en þeim sem ekki komu þeim í verk skiluðu þær ekki neinu. Það skiptir í raun ekki máli hver á upphaflega hugmyndina, sá sem framkvæmir hana er sá sem nýtur ávaxtanna.jet_beetle


Gulleggið - skráning rennur út í dag 20.janúar

Nú fer að ljúka skráningu á viðskiptahugmyndum Gulleggsins, umsóknarfresturinn rennur út í kvöld á miðnætti. Ekki er þörf á að skila inn fullmótaðri hugmynd á þessu stigi heldur aðeins greinagóðri lýsingu á hugmyndinni.

Gulleggið er árleg nýsköpunarkeppni sem er haldin er árlega á vegum Innovit nýsköpunar og frumkvöðlaseturs. Fjölmörg fyrirtæki hafa farið í gegnum keppnina en velta Innovit sprotafyrirtækjanna er nú um 300 milljónir og þar starfa um 100 manns.

Lesa má nánar um keppnina á vef Gulleggsins.


Hvað eru margar hliðar á sólbaðsbekk?

Ég sat í pottinum um daginn og horfið á mannlífið í kringum mig  þegar hópur krakka dró athygli mína að sér. Þeir voru að gantast í kringum bekk þar sem fólk gat legið í sólbaði. Ekki það að mikið væri um að fólk lægi í sólbaði á þessum tíma dags en það skipti þessa krakka ekki neinu máli. Þau fundu not fyrir hann og reyndar fundu margar leiðir til að nota hann. Eitt og annað dunduðu þau sér með þennan bekk í dágóða stund og voru sennilega búin að prófa að nota hann á fleiri vegu heldur en hönnuður hans hafði nokkurn tíman ímyndað sér. Sama átti sér stað þegar 6 ára sonur minn fékk lego bíl í gjöf. Eftir að ég hafði eytt dágóðum tíma í að setja hann saman samkvæmt teikningunni reif hann bílinn í sundur og bjó til flugvél. Áður en dagurinn var liðinn var hann búinn að gera a.m.k. fimm útgáfur af þessum bíl. Hann var búinn að kryfja þessa kubba til mergjar og fann fleiri not fyrir þá en ímyndurafl mitt náði.

Við fullorðna fólkið erum búin að læra í gegnum tíðina, úr skólanum, frá foreldrum og umhverfi okkar að það er best að fara eftir því sem reglurnar og fólkið í kringum okkar segir. Annars lendum við í vandræðum. En með því höfum við glatað hluta af lærdómsferli okkar og þannig eigum við erfiðara með að hugsa út fyrir boxið, eða hvað hefurðu upphugsað not fyrir eða prófað sólbaðsbekk á marga vegu?


Einn staur í einu

Oft þurfa frumkvöðlar að ganga eyðimerkurgöngu áður en þeir sjá laun erfiðisins. Ég heyrði góða sögu í útvarpinu í gær sem minnti mig á reynslu margra frumkvöðla. Hún var um lítinn strák forðum daga sem átti fátæka foreldra og ekki alltaf til nægur matur á heimilinu. Eitt sinn þegarStrákur með fisk2 hann var að leika sér niður á höfn, svangur eins og hin sistkyni sín, fékk hann að gjöf nokkra fiska frá bátsmanni sem hugsaði hlýtt til fjölskyldunnar. Hann hnýtti fiskana vandlega fyrir drenginn á spotta sem hann gæti farið með heim í soðið. Lítill búkur drengsins átti þó erfitt með að draga fiskinn heim en drengurinn reyndi hvað hann gat, sveittur og þreyttur að láta fiskinn ekki dragast eftir jörðinni. Að lokum gat  hann ekki meir og hallaði sér að staur til að hvíla sig. Hann var aumur í höndunum og hugsaði með sér að hann næði aldrei alla leið með fiskinn, sama hvað hann reyndi. Þegar hann var í þann mund að gefast upp varð honum litið á næsta staur. Það er ekki svo langt í næsta staur, best að fara einn staur í viðbót og hætta svo. Þegar að þeim staur var komið var stutt í þann næsta og strákurinn ákvað að fara einn í viðbót. Þannig gekk þetta þar til hann var kominn alla leið heim með fiskinn og uppskar erindi erfiði síns. Allir í fjölskyldunni fengu nóg af glænýjum fiski þetta kvöld.

Þessi litla saga er hliðstæð þeim sem þurfa að vinna sig í gegnum margar hindranir áður en að þeir uppskera. Það er oft löng leið frá því að fá góða viðskiptahugmynd þangað til hún er farin að gefa af sér. Þá er mikilvægt að taka einn staur í einu og þrauka þar til erfiðið ber árangur.


Komdu hugmyndunum í framkvæmd

Í gær var Athafnavikan formlega opnuð af Iðnaðarráðherra. Athafnavika fer samtímis fram í meira en 100 löndum og stendur vikuna 16.-22.nóvember. Markmiðið er að vekja athygli á gildi nýsköpunar og athafnasemi fyrir samfélagið. Á vefsíðu vikunnar athafnavika.is er hægt að nálgast ýmsa atburði bæði stóra og smáa og ættu flestir að finna sér eitthvað við hæfi. Flestir hafa viðskiptahugmyndir í kollinum og nú er tilvalið tækifæri að fara yfir þær og ýta þeim úr vör en hugmynd verður aldrei að veruleika nema þær séu framkvæmdar. Nýsköpunarbloggið hvetur alla að taka þátt í þessu ótrúlega framtaki, mæta á skemmtilega atburði og koma sem mestu í framkvæmd.


Gefðu þér tíma til að hugsa

Ég byrjaði að hjóla í vinnuna nýlega. Þó að það sé gott fyrir líkama og sál er það svo sem ekki í frásögu færandi nema út af aukaverkun sem kemur sér ákaflega vel fyrir hugmyndavinnu. Ég áttaði mig fljótlega á því að þessar 50 mínútur sem tekur að hjóla skapar jafn margar ef ekki fleiri góðar hugmyndir heldur en allur vinnudagurinn.

Hugurinn þarf nefnilega að slaka á til að fá góðar hugmyndir. Heilinn hefur ótrúlega hæfileika til að reikna og setja hluti í samhengi en erfiðara getur verið að túlka og kalla fram þessa útreikninga sem við gerum ómeðvitað hverja einustu mínútu dagsins. Meðan við erum að einbeita okkur er hugurinn að meðtaka upplýsingar en þegar hann fær hvíld rennur hann í gegnum upplýsingarnar, metur þær og flokkar þær betur. Meðal annars þess vegna er svefn okkur svona mikilvægur. Þegar hugurinn fær hvíld á daginn svo sem þegar við erum að hjóla eða gera eitthvað annað andlega slakandi virkar hann eins og þegar við sofum. Hann er að meta upplýsingarnar sem við höfum innbyrt og prófar að raða þeim saman á alla mögulega vegu líkt og við reyndum að púsla púsluspili blindandi. Þess vegna fáum við oft góðar hugmyndir þegar við erum ekkert að hugsa um vandamálið sem við erum að reyna að leysa heldur þegar við erum að slaka á.

Í kröfuhörðu og stressandi samfélagi eins og við lifum nú í fáum við sjaldan góða stund til að leyfa huganum að reika að vild. Það er nauðsynlegt að við tökum okkur tíma til að slaka á og láta hugann um að vinna í næði.


Er kennsla í frumkvöðlafræðum á villigötum?

Í þeim erfiðleikum sem Íslendingar ganga nú í gegnum er stjórnvöldum tíðrætt um mikilvægi nýsköpunar í leið þjóðarinnar út úr kreppunni. Fyrir rúmu ári síðan kláraði ég MPM gráðu í verkefnastjórnun og rannsóknarefni mitt var um það hvernig hægt væri að spá fyrir um árangur viðskiptahugmyndar. Ég tók meðal annars fyrir hvaða eiginleikar frumkvöðulsins sjálfs hefði áhrif á árangur nýrra fyrirtækja. Ein af niðurstöðum mínum var að eiginleikar frumkvöðulsins sjálfs gætu haft úrslitaáhrif á árangur viðskiptahugmyndar. Ef eiginleikar frumkvöðla s.s. samskiptahæfni og söluhæfileikar skipta miklu máli erum við þá að kenna væntanlegum frumkvöðlum nægilega vel.

Frumkvöðlar vinna í krefjandi umhverfi óvissu og álags og verða að eiga samskipti við marga aðila til að byggja upp ný fyrirtæki og láta þau reka sig. Oftar en ekki stofna þeir fyrirtæki sín með fleiri viðskiptafélögum. Selja þarf fjárfestum hugmyndir um hina nýju viðskiptahugmynd sem oftar en ekki er áhættusöm og ekki um auðugan garð að gresja í fjármögnun slíkra ævintýra. Finna þarf hæft starfsfólk, semja þarf við birgja, banka og viðskiptavini um verð, skilmála og annað sem viðkemur rekstrinum. Allir þessir aðilar þurfa að hafa trú á hinni nýju hugmynd ef fyrirtækið á að komast á koppinn. Það er því ljóst að félagsleg hæfni skiptir miklu máli í árangri frumkvöðla.Í þessu sambandi er oft talað um félagslega færni og félagslegan auð. Félagslegur auður er sá ávinningur sem býr í þeim persónulegu samböndum sem frumkvöðlar hafa og þeim orðstír sem þeir státa af. Einstaklingar með góðan orðstír og öflugt tengslanet hafa greiðari aðgang að upplýsingum, fjármagni og hugsanlegum viðskiptavinum. Þeir eru því líklegri að búa yfir upplýsingum um ný tækifæri og eiga greiðari aðgang að fjárfestum til að fjármagna það. Meðan félagslegur auður hjálpar frumkvöðlum að opna dyr að tækifærum þá ræður félagsleg færni því hvernig þeim tekst að nýta tækifærið þegar dyrnar hafa verið opnar. Einstaklingar sem búa yfir meiri félagslegum hæfileikum eiga auðveldara með að hafa áhrif á aðra og vinna með þeim. Þetta kemur sér sérstaklega vel þegar staðið er í samningaviðræðum, selja þarf öðrum hugmyndir sínar og laða til sín hæft fólk en það er einmitt það sem frumkvöðlar þurfa að ná árangri í til að geta byggt upp nýtt fyrirtæki. Það er því ekki tilviljun að hæfileikar eins og að skynja og skilja aðra rétt, geta tjáð tilfinningar sínar auðveldlega og að koma vel fyrir auki líkur á árangri frumkvöðla. Þessir eiginleikar hjálpa fólki í samskiptum, sölu og samningaviðræðum og hafa rannsóknir einmitt sýnt að hæfileikinn að hafa áhrif á aðra skipti miklu máli varðandi árangur frumkvöðla.

Félagsleg færni hefur forspárgildi um árangur frumkvöðla og halda margir því fram að fólkið sem kemur viðskiptahugmyndum í framkvæmd sé í raun mikilvægara en viðskiptahugmyndin sjálf. Það leiðir hugann að því hvað við kennum því fólki sem ætlar að hefja sjálfstæðan rekstur. Þó að mikilvægt sé að frumkvöðlar hafi þekkingu á rekstri og viðskiptum þá selja excel, word og power point skjöl ekki viðskiptahugmyndirnar. Það eru fleiri þættir og mannlegri sem skipta þar mestu máli og hvet ég skólayfirvöld að huga betur að félagsfærni þáttum frumkvöðla í námsframboði sínu.


Framleiðum hugmyndir

Athyglisvert framtak hjá N1 föstudaginn 5.júní. Þá verður hugmyndafundur í Borgarleikhúsinu þar sem hugmyndaríkt fólk hittist og hlýðir á áhugaverð erindi og myndar ný tengsl. Nauðsynlegt er að skrá sig á N1

Styrkir til nýrra orkulausna í evrópu

Enterprise Europe Network á Íslandi auglýsa styrki til nýrra orkulausna í evrópu. Sjá nánar á vef EEN.


Vörumessa í Smáralind

Hin árlega vörumessa Ungra frumkvöðla fer fram í Smáralind dagana 27.-28.mars. Þar munu nemendur sem hafa tekið þátt í Fyrirtækjasmiðjunni í vetur kynna fyrirtæki sín, vörur og þjónustu. Sjá nánar á vef http://www.ungirfrumkvoðlar.is/


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband