Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Komdu hugmyndum þínum í framkvæmd

Á hverjum degi fær meðalmaður þúsundir hugmynda og tekur ótal ákvarðanir. Í flestum tilvikum gerist þetta ómeðvitað en öðru hvoru fáum við hugmyndir sem skjóta rótum í huga okkar og vekja okkur til umhugsunar. Meðalmaður fær 2-3 góðar viðskiptahugmyndir á ári og sumir fá miklu fleiri en það. En hugmynd er bara hugmynd og gerir í sjálfu sér ekki mikið fyrir okkur. Það er langur vegur frá því að fá góða hugmynd og að koma henni í framkvæmd.

businessideas2

Albert Einstein hefði til að mynda ekki komið fram með afstæðiskenninguna ef hann hefði ekki skrifað niður og unnið áfram með þær hugmyndir sem hann fékk. Edisson hefði ekki fundið upp ljósaperuna ef hann hefði ekki komið hugmyndum sínum í framkvæmd.

Á þeim tímapunkti, þegar kemur að því að framkvæma, stoppa flestar hugmyndir. Eftir stutta umhugsun eru góðar hugmyndir farnar að ógna okkar vanabundna lífi. Þær gera kröfur til okkar um að breyta af vananum og fara að gera eitthvað sem við erum ekki vön að gera. Þær krefjast af okkur að fara út úr okkar örugga lífi og fara að kljást við markaðsöfl og réttlæta allt sem við gerum. Staðreyndin er sú að þegar fólk fær viðskiptahugmynd er raunin oft sú að margir aðrir hafa fengið nákvæmlega sömu hugmynd án þess að hafa framkvæmd hana af ótta við þær áskoranir sem þarf að takast á við framkvæmd þeirra.

Rétt í þann mund sem góðar hugmyndir koma í huga okkar lenda þær því fljótlega í geymslu minninga og daga þar uppi og falla á endanum í eilífðarbrunn gleymskunnar. Oft hefur það gerst að í dánarbúum hafa fundist lýsingar á hugmyndum sem á sínum tíma voru langt á undan sinni samtíð. Stundum hugmyndir sem skiluðu þeim sem komu þeim seinna í framkvæmd álitlegum gróða en þeim sem ekki komu þeim í verk skiluðu þær ekki neinu. Það skiptir í raun ekki máli hver á upphaflega hugmyndina, sá sem framkvæmir hana er sá sem nýtur ávaxtanna.jet_beetle


Gulleggið - skráning rennur út í dag 20.janúar

Nú fer að ljúka skráningu á viðskiptahugmyndum Gulleggsins, umsóknarfresturinn rennur út í kvöld á miðnætti. Ekki er þörf á að skila inn fullmótaðri hugmynd á þessu stigi heldur aðeins greinagóðri lýsingu á hugmyndinni.

Gulleggið er árleg nýsköpunarkeppni sem er haldin er árlega á vegum Innovit nýsköpunar og frumkvöðlaseturs. Fjölmörg fyrirtæki hafa farið í gegnum keppnina en velta Innovit sprotafyrirtækjanna er nú um 300 milljónir og þar starfa um 100 manns.

Lesa má nánar um keppnina á vef Gulleggsins.


Hvað eru margar hliðar á sólbaðsbekk?

Ég sat í pottinum um daginn og horfið á mannlífið í kringum mig  þegar hópur krakka dró athygli mína að sér. Þeir voru að gantast í kringum bekk þar sem fólk gat legið í sólbaði. Ekki það að mikið væri um að fólk lægi í sólbaði á þessum tíma dags en það skipti þessa krakka ekki neinu máli. Þau fundu not fyrir hann og reyndar fundu margar leiðir til að nota hann. Eitt og annað dunduðu þau sér með þennan bekk í dágóða stund og voru sennilega búin að prófa að nota hann á fleiri vegu heldur en hönnuður hans hafði nokkurn tíman ímyndað sér. Sama átti sér stað þegar 6 ára sonur minn fékk lego bíl í gjöf. Eftir að ég hafði eytt dágóðum tíma í að setja hann saman samkvæmt teikningunni reif hann bílinn í sundur og bjó til flugvél. Áður en dagurinn var liðinn var hann búinn að gera a.m.k. fimm útgáfur af þessum bíl. Hann var búinn að kryfja þessa kubba til mergjar og fann fleiri not fyrir þá en ímyndurafl mitt náði.

Við fullorðna fólkið erum búin að læra í gegnum tíðina, úr skólanum, frá foreldrum og umhverfi okkar að það er best að fara eftir því sem reglurnar og fólkið í kringum okkar segir. Annars lendum við í vandræðum. En með því höfum við glatað hluta af lærdómsferli okkar og þannig eigum við erfiðara með að hugsa út fyrir boxið, eða hvað hefurðu upphugsað not fyrir eða prófað sólbaðsbekk á marga vegu?


Komdu hugmyndunum í framkvæmd

Í gær var Athafnavikan formlega opnuð af Iðnaðarráðherra. Athafnavika fer samtímis fram í meira en 100 löndum og stendur vikuna 16.-22.nóvember. Markmiðið er að vekja athygli á gildi nýsköpunar og athafnasemi fyrir samfélagið. Á vefsíðu vikunnar athafnavika.is er hægt að nálgast ýmsa atburði bæði stóra og smáa og ættu flestir að finna sér eitthvað við hæfi. Flestir hafa viðskiptahugmyndir í kollinum og nú er tilvalið tækifæri að fara yfir þær og ýta þeim úr vör en hugmynd verður aldrei að veruleika nema þær séu framkvæmdar. Nýsköpunarbloggið hvetur alla að taka þátt í þessu ótrúlega framtaki, mæta á skemmtilega atburði og koma sem mestu í framkvæmd.


Gefðu þér tíma til að hugsa

Ég byrjaði að hjóla í vinnuna nýlega. Þó að það sé gott fyrir líkama og sál er það svo sem ekki í frásögu færandi nema út af aukaverkun sem kemur sér ákaflega vel fyrir hugmyndavinnu. Ég áttaði mig fljótlega á því að þessar 50 mínútur sem tekur að hjóla skapar jafn margar ef ekki fleiri góðar hugmyndir heldur en allur vinnudagurinn.

Hugurinn þarf nefnilega að slaka á til að fá góðar hugmyndir. Heilinn hefur ótrúlega hæfileika til að reikna og setja hluti í samhengi en erfiðara getur verið að túlka og kalla fram þessa útreikninga sem við gerum ómeðvitað hverja einustu mínútu dagsins. Meðan við erum að einbeita okkur er hugurinn að meðtaka upplýsingar en þegar hann fær hvíld rennur hann í gegnum upplýsingarnar, metur þær og flokkar þær betur. Meðal annars þess vegna er svefn okkur svona mikilvægur. Þegar hugurinn fær hvíld á daginn svo sem þegar við erum að hjóla eða gera eitthvað annað andlega slakandi virkar hann eins og þegar við sofum. Hann er að meta upplýsingarnar sem við höfum innbyrt og prófar að raða þeim saman á alla mögulega vegu líkt og við reyndum að púsla púsluspili blindandi. Þess vegna fáum við oft góðar hugmyndir þegar við erum ekkert að hugsa um vandamálið sem við erum að reyna að leysa heldur þegar við erum að slaka á.

Í kröfuhörðu og stressandi samfélagi eins og við lifum nú í fáum við sjaldan góða stund til að leyfa huganum að reika að vild. Það er nauðsynlegt að við tökum okkur tíma til að slaka á og láta hugann um að vinna í næði.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband