Færsluflokkur: Menntun og skóli

Er kennsla í frumkvöðlafræðum á villigötum?

Í þeim erfiðleikum sem Íslendingar ganga nú í gegnum er stjórnvöldum tíðrætt um mikilvægi nýsköpunar í leið þjóðarinnar út úr kreppunni. Fyrir rúmu ári síðan kláraði ég MPM gráðu í verkefnastjórnun og rannsóknarefni mitt var um það hvernig hægt væri að spá fyrir um árangur viðskiptahugmyndar. Ég tók meðal annars fyrir hvaða eiginleikar frumkvöðulsins sjálfs hefði áhrif á árangur nýrra fyrirtækja. Ein af niðurstöðum mínum var að eiginleikar frumkvöðulsins sjálfs gætu haft úrslitaáhrif á árangur viðskiptahugmyndar. Ef eiginleikar frumkvöðla s.s. samskiptahæfni og söluhæfileikar skipta miklu máli erum við þá að kenna væntanlegum frumkvöðlum nægilega vel.

Frumkvöðlar vinna í krefjandi umhverfi óvissu og álags og verða að eiga samskipti við marga aðila til að byggja upp ný fyrirtæki og láta þau reka sig. Oftar en ekki stofna þeir fyrirtæki sín með fleiri viðskiptafélögum. Selja þarf fjárfestum hugmyndir um hina nýju viðskiptahugmynd sem oftar en ekki er áhættusöm og ekki um auðugan garð að gresja í fjármögnun slíkra ævintýra. Finna þarf hæft starfsfólk, semja þarf við birgja, banka og viðskiptavini um verð, skilmála og annað sem viðkemur rekstrinum. Allir þessir aðilar þurfa að hafa trú á hinni nýju hugmynd ef fyrirtækið á að komast á koppinn. Það er því ljóst að félagsleg hæfni skiptir miklu máli í árangri frumkvöðla.Í þessu sambandi er oft talað um félagslega færni og félagslegan auð. Félagslegur auður er sá ávinningur sem býr í þeim persónulegu samböndum sem frumkvöðlar hafa og þeim orðstír sem þeir státa af. Einstaklingar með góðan orðstír og öflugt tengslanet hafa greiðari aðgang að upplýsingum, fjármagni og hugsanlegum viðskiptavinum. Þeir eru því líklegri að búa yfir upplýsingum um ný tækifæri og eiga greiðari aðgang að fjárfestum til að fjármagna það. Meðan félagslegur auður hjálpar frumkvöðlum að opna dyr að tækifærum þá ræður félagsleg færni því hvernig þeim tekst að nýta tækifærið þegar dyrnar hafa verið opnar. Einstaklingar sem búa yfir meiri félagslegum hæfileikum eiga auðveldara með að hafa áhrif á aðra og vinna með þeim. Þetta kemur sér sérstaklega vel þegar staðið er í samningaviðræðum, selja þarf öðrum hugmyndir sínar og laða til sín hæft fólk en það er einmitt það sem frumkvöðlar þurfa að ná árangri í til að geta byggt upp nýtt fyrirtæki. Það er því ekki tilviljun að hæfileikar eins og að skynja og skilja aðra rétt, geta tjáð tilfinningar sínar auðveldlega og að koma vel fyrir auki líkur á árangri frumkvöðla. Þessir eiginleikar hjálpa fólki í samskiptum, sölu og samningaviðræðum og hafa rannsóknir einmitt sýnt að hæfileikinn að hafa áhrif á aðra skipti miklu máli varðandi árangur frumkvöðla.

Félagsleg færni hefur forspárgildi um árangur frumkvöðla og halda margir því fram að fólkið sem kemur viðskiptahugmyndum í framkvæmd sé í raun mikilvægara en viðskiptahugmyndin sjálf. Það leiðir hugann að því hvað við kennum því fólki sem ætlar að hefja sjálfstæðan rekstur. Þó að mikilvægt sé að frumkvöðlar hafi þekkingu á rekstri og viðskiptum þá selja excel, word og power point skjöl ekki viðskiptahugmyndirnar. Það eru fleiri þættir og mannlegri sem skipta þar mestu máli og hvet ég skólayfirvöld að huga betur að félagsfærni þáttum frumkvöðla í námsframboði sínu.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband