Hvernig verða hugmyndir til

Fyrr á árum reyndu menn að finna heilastöðvar fyrir hæfileika fólks. Það var reynt að finna staði heilans sem voru ábyrgir fyrir ýmsum eiginleikum s.s. hvar ástin á uppruna sinn, hvaðan forvitni er stjórnað og hvar í heilanum var stöð fyrir stærð. Sumar af þessum tilraunum er broslegar nú þegar við vitum meira um starfsemi líkamans.

Það er ekki hægt að tala um neitt sem heitir hugmyndauppspretta í heilanum og ekki heldur að ákveðinn hluti heilans sé ábyrgur fyrir sköpunargáfu fólks. Það eru ekki til nein gen sem stjórna sköpunargáfu þar sem hún er í raun ferli í huganum sem á sér stað og krefst samstarf ýmissa heilastöðva. Það gætu verið einhver gen sem hafa áhrif á ákveðin skref í þessu ferli en ekkert gen sem lýtur beint að sköpunargáfu.

Það eru enn mýtur á kreiki í þessa átt og halda sumir fram að hægra heilahvelið stjórni hugmyndaauðgi. Í grófum dráttum má segja um heilahvelin að hægra heilahvelið sé ábyrgt fyrir skilning á ferlum sem lýtur að hröðum, flóknum, heildarmyndar og  því sem lýtur að rúmi. Vinstra heilahvelið er tengt því sem lýtur að tungumáli og línulegri hugsun. Það er því freistandi að draga þá ályktun að hægra heilahvelið sé ábyrgt fyrir því ferli að fá hugmynd. Rannsóknir hafa hins vegar sýnt fram á að það sé mikil einföldun að tengja sköpunargáfu við annað hvort heilahvelið heldur er þeir staðir heilans sem eru nauðsynlegir í sköpun dreifðir um hann allan. Til að fá hugmynd reynir á hluti eins og áhuga, innblástur, eftirtekt, mat á valkostum og fleira. Það hefur sýnt sig að virkar heilastöðvar í hugmyndaferli færast til eftir því sem sérfræðikunnátta viðkomandi verður betri. Sköpun getur því ekki byggst á einu geni eða verið algjörlega meðfæddur hæfileiki.

Ekki er hægt að segja að vísindasamfélagið skilji til hlýtar hvernig hugmyndir verða til en margir aðhyllast ferli sem samanstendur af fjórum skrefum.

Í upphafi er undirbúningsskrefið (e. preparation) þar sem söfnun gagna og upplýsinga er aflað, leytað að tengdum hugmyndum og hlustað á tillögur.

Næsta skref er gerjunarstigið (e. incubation) sem er tíminn milli þess sem upplýsinga er aflað þangað til hugmyndin verður að veruleika. Þetta er tíminn þar sem upplýsingarnar eru útfærðar nánar og hugurinn raðar þeim upp í rökréttari röð.

Þriðja skrefið er þegar hugmyndin verður að veruleika, aha augnablikið. Það má halda því fram að í raun fái hugurinn margar hugmyndir en hendi þeim sem ekki eru líklegar til árangurs og því komi þær hugmyndir aldrei upp á yfirborð meðvitundarinnar. Þannig sé heilinn að leika sér með upplýsingar og reynir að raða þeim upp á ótal vegu þar til úr verður hugmynd sem gæti gagnast okkur. Það má ímynda sér aðila sem er að pússla og reynir að raða líklegum stykkjum saman. Þegar stykki eiga ekki saman reynir hann við annað og svo framvegis þangað til hann finnur tvö stykki sem passa saman.

Að lokum fer fram eins konar mat á hugmyndinni. Eftir að hugmyndin er orðin að veruleika verður að meta hana. Sá sem vill komast til tunglsins og fær þá hugmynd að hoppa þangað myndi meta hana einskis virði þar sem það er ekki líklegt til árangurs. Ef hugmyndin er dæmd sem likleg til árangurs er hún útfærð nánar.

Það að fá hugmynd er ekki tengt neinu einu geni, heilastöð eða meðfæddum hæfileikum. Það er aðallega vinna sem tengist ýmsum þáttum sem við getum örvað m.a. þekkingarleyt, áhuga og dugnaði. Við fæðumst ekki sem snillingar hugmyndasmiðir, það er fengið með æfingu og vinnu rétt eins og íþróttamenn þurfa að æfa likamann til að ná árangri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband