Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009
Einn staur í einu
15.12.2009 | 10:56
Oft þurfa frumkvöðlar að ganga eyðimerkurgöngu áður en þeir sjá laun erfiðisins. Ég heyrði góða sögu í útvarpinu í gær sem minnti mig á reynslu margra frumkvöðla. Hún var um lítinn strák forðum daga sem átti fátæka foreldra og ekki alltaf til nægur matur á heimilinu. Eitt sinn þegar hann var að leika sér niður á höfn, svangur eins og hin sistkyni sín, fékk hann að gjöf nokkra fiska frá bátsmanni sem hugsaði hlýtt til fjölskyldunnar. Hann hnýtti fiskana vandlega fyrir drenginn á spotta sem hann gæti farið með heim í soðið. Lítill búkur drengsins átti þó erfitt með að draga fiskinn heim en drengurinn reyndi hvað hann gat, sveittur og þreyttur að láta fiskinn ekki dragast eftir jörðinni. Að lokum gat hann ekki meir og hallaði sér að staur til að hvíla sig. Hann var aumur í höndunum og hugsaði með sér að hann næði aldrei alla leið með fiskinn, sama hvað hann reyndi. Þegar hann var í þann mund að gefast upp varð honum litið á næsta staur. Það er ekki svo langt í næsta staur, best að fara einn staur í viðbót og hætta svo. Þegar að þeim staur var komið var stutt í þann næsta og strákurinn ákvað að fara einn í viðbót. Þannig gekk þetta þar til hann var kominn alla leið heim með fiskinn og uppskar erindi erfiði síns. Allir í fjölskyldunni fengu nóg af glænýjum fiski þetta kvöld.
Þessi litla saga er hliðstæð þeim sem þurfa að vinna sig í gegnum margar hindranir áður en að þeir uppskera. Það er oft löng leið frá því að fá góða viðskiptahugmynd þangað til hún er farin að gefa af sér. Þá er mikilvægt að taka einn staur í einu og þrauka þar til erfiðið ber árangur.
Fræðslumolar | Breytt s.d. kl. 11:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)