Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Gefðu þér tíma til að hugsa

Ég byrjaði að hjóla í vinnuna nýlega. Þó að það sé gott fyrir líkama og sál er það svo sem ekki í frásögu færandi nema út af aukaverkun sem kemur sér ákaflega vel fyrir hugmyndavinnu. Ég áttaði mig fljótlega á því að þessar 50 mínútur sem tekur að hjóla skapar jafn margar ef ekki fleiri góðar hugmyndir heldur en allur vinnudagurinn.

Hugurinn þarf nefnilega að slaka á til að fá góðar hugmyndir. Heilinn hefur ótrúlega hæfileika til að reikna og setja hluti í samhengi en erfiðara getur verið að túlka og kalla fram þessa útreikninga sem við gerum ómeðvitað hverja einustu mínútu dagsins. Meðan við erum að einbeita okkur er hugurinn að meðtaka upplýsingar en þegar hann fær hvíld rennur hann í gegnum upplýsingarnar, metur þær og flokkar þær betur. Meðal annars þess vegna er svefn okkur svona mikilvægur. Þegar hugurinn fær hvíld á daginn svo sem þegar við erum að hjóla eða gera eitthvað annað andlega slakandi virkar hann eins og þegar við sofum. Hann er að meta upplýsingarnar sem við höfum innbyrt og prófar að raða þeim saman á alla mögulega vegu líkt og við reyndum að púsla púsluspili blindandi. Þess vegna fáum við oft góðar hugmyndir þegar við erum ekkert að hugsa um vandamálið sem við erum að reyna að leysa heldur þegar við erum að slaka á.

Í kröfuhörðu og stressandi samfélagi eins og við lifum nú í fáum við sjaldan góða stund til að leyfa huganum að reika að vild. Það er nauðsynlegt að við tökum okkur tíma til að slaka á og láta hugann um að vinna í næði.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband