Nýsköpun byrjar á spurningu

Líf okkar snýst um venjur. Við vöknum á ákveðnum tíma dags, fáum okkur sama morgunmatinn og alltaf, horfum á sjónvarpsþáttinn okkar á kvöldin. Venjur gera okkur lífið auðvelt og auðvelda okkur að framkvæma meira á styttri tíma. Við getum framkvæmt hlutina án þess að hugsa og oft marga í einu og það sparar okkur orku. Án þess að fara eftir venjum yrði líf okkar óreglulegt og við kæmum ekki eins miklu verk. Árangur okkar yrði minni þar sem það færi mikil orka í hversdagslega hluti eins og að vakna og koma sér til vinnu.

En eins og venjur eru okkur nauðsynlegar eru þær líka okkar mestu hættur. Okkur hættir við að festast í fari venja sem áttu eitt sinn við en eru komnar langt út fyrir uppruna sinn og í staðinn fyrir að auðvelda okkur lífið eru þær farnar að halda aftur af okkur. Við höfum ekki þróast með umhverfinu og erum farin að synda á móti straumnum.Venjur eiga yfirleitt uppruna sinn í lausn sem eitt sinn átti við en þegar umhverfið breytist gleymist oft að spyrja spurningarinnar hvort lausnin sem við notumst við eigi ennþá við.

Eitt sinn hóf ég starf í verslun þar sem forveri minn var búinn að vera 19 ár við stjórnvölinn. Forverinn var frábær starfsmaður sem náði miklum árangri og tók ég við góðu búi. En á þessum vinnustað hafði skapast mikið af hefðum og venjum. Ein af þessum venjum sem hafði skapast var að söluupplýsingar búðarinnar voru handskrifaðar í ákveðna stílabók eftir vöruflokkum. En jafnframt voru þessar upplýsingar prentaðar út á hverjum degi!? Þegar ég spurði hver væri nauðsyn þess að handskrifa þetta í annari röð í stílabók var svarið að þetta væri biblían sem væri skoðuð til að skoða sölusöguna.

Einhvern tíman hafa þessar tölur verið fengnar með öðrum hætti og þær skrifaðar í bók en þegar tölvutæknin kom til skjalanna hefur gleymst að spyrja spurninga. Og þrátt fyrir augljósan tvíverknað var ég næstum rekinn fyrir að neita að fylgja þessari ævafornu hefð, fólk var ekki tilbúið að spyrja sig mikilvægra spurninga.Þegar lausnirnar eru ekki lengur í takt við umhverfið er kominn tími á spurningar. Þegar þú ert að gera sama hlutinn oftar en einu sinni er nauðsynlegt að spyrja sig af hverju. Ef aðrir eru að gera sambærilega hluti betur, hraðar eða ódýrar en þú er kominn tími til að spyrja. Það er nauðsynlegt að spyrja sig reglulega um hvort ekki séu til betri og fljótari leiðir til að ná settu marki.

Þó að okkur þykir augljóst að það á ekki við að handskrifa útprentaðar tölur til að viðhalda einhverjum venjum sjáum oft fólk sem gerir álíka hluti vegna þess að það festist í venjum hversdagsleikans og spyr ekki spurninga um réttlæti þeirra. Í verslunarstarfi mínu fór ég reglulega í frakkann, labbaði út á bílaplan og gekk inn eins og ég væri viðskiptavinur. Gekk svo í gegnum verslunina og lifði mig algjörlega inn í það hlutverk að ég væri viðskiptavinur. Oftast sá maður augljósa hluti sem viðskiptavinur sem maður sá ekki sem starfsmaður, maður var einfaldlega of niðursokkinn í eigin vinnu til að horfa á hana á hlutlausan hátt. Orðatiltækið glöggt er gests augað á því vel við.

Það er því nauðsynlegt að færa sig upp fyrir eigin venjur og reyna að horfa á daglegar venjur eða jafnvel þjóðfélagið og spyrja sig spurninga um réttlætingu þess sem er að gerast. Þá opnast oft ný og óvænt innsýn inn í fastmótaðan heim.


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband