Tengsl tækni- og viðskiptaþekkingar

Félagi minn, sem er tölvunarfræðingur, hafði samband við mig um daginn og var að kanna hvernig hægt væri að tengja saman viðskipta- og tækniþekkingu. Oft hafa frumkvöðlar ákveðna sérfræðiþekkingu s.s. tölvunarfræðingar, verkfræðingar, smiðir o.s.frv. en skortir viðskiptalega þekkingu til að koma hugmyndum sínum nægilega vel af stað. Það getur líka verið öfugt að fólk með viðskiptaþekkingu skorti tæknilega sérfræðiþekkingu til að geta komið hugmyndum sínum í framkvæmd.

Þekkt dæmi um þetta er ljósaperan og saga hennar en eins og allir vita er Edison skrifaður faðir hennar. Ljósaperan er þó ekki ein hugmynd eða uppfinning heldur röð uppfinninga og þróun þeirra sem leiðir af sér ljósaperuna. Það sem Edison, sem var einn af þeim sem tók þátt í þessari þróun, hafði umfram hina sem komu að þessum uppgötvunum var að hann skildi viðskiptalega þýðingu ljósaperunnar og var fljótur að nýta sér þekkingu annara og tryggja sér þannig einkarétt á ljósaperunni og búa til úr henni söluvöru. Nú er ég alls ekki að segja að Edisson hafi stolið hugmyndum annara heldur skildi hann viðskiptalega þýðingu þeirra uppfinninga sem voru að koma fram á þessum tíma til að búa til úr því viðskiptatækifæri rétt eins og Yahoo skildi þýðingu internetsins. Stórar hugmyndir eru sjaldnast eyland heldur byggja þær á þeim uppfinningum sem fyrir eru. Hann gat spunnið saman tækniþekkinguna og viðskiptaþekkinguna meðan margir kollegar hans voru uppteknir af uppfinningunni en minna af viðskiptalegri þýðingu þeirra eða höfðu ekki nægilega þekkingu til þess. Rannsóknir hafa líka sýnt að flest ný fyrirtæki eru stofnuð af fleiri en einum einstaklingum þar sem meiri þekking og reynsla er til staðar en hjá einstaklingum sem eiga erfiðara með að hafa víðfeðma þekkingu á mörgum sviðum. Það er því ekki síður mikilvægt fyrir þá sem hafa hagsmuni af öflugri nýsköpun s.s. stjórnvöld að leiða saman tækniþekkingu og viðskiptaþekkingu. Margir hafa góðar hugmyndir í kollinum en hafa ekki þekkingu eða getu til að koma þeim í framkvæmd. Rannsóknir hafa sýnt fram á að börn bænda eru líklegri til að verða frumkvöðlar (tækniþekking) en aðrir og þeir sem hafa unnið í framleiðslu (tækniþekking) og markaðssetningu (viðskiptaþekking) eða unnið í þeim geira sem þeir stofna ný fyrirtæki sín í (tækni- og/eða viðskiptaþekking) séu líklegri til að ná árangri en aðrir frumkvöðlar.

Sum fyrirtæki hafa gengið svo langt að búa til sérstakt viðskiptamódel sem laðar að sér frumkvöðla styðjast við opna nýsköpun (e. open innovation). Þau eru þá eins konar miðstöðvar þar sem einstaklingum og fyrirtækjum gefst kostur á að þróa eigin vörur með hjálp þess fyrirtækis sem notast við opið nýsköpunarmódel á einn eða annan hátt. Eitt af þessum fyrirtækjum er Google en auk þess að vera með framúrskarandi nýsköpunarteymi hafa þeir búið til vörur sem aðrir geta notað til að þróa eigin vörur. Google gerir sér grein fyrir því að hversu öflugt sem nýsköpunarteymi þess er kemur það aldrei til með að hafa við þeirri gríðarlegu nýsköpun sem allur heimurinn vinnur að hverju sinni. Þeir hafa því búið þannig um hnútana að vera nær nýsköpun heimsins með því að leyfa öðrum að tengjast vörum sínum og þróa eigin lausnir á grunni lausna sem Google hafa búið til. Google hefur því mun meiri yfirsýn hvað er að gerast í heiminum og hvert eftirspurnin er að þróast því ekki einu sinni vita þeir hvað er verið að þróa víða í heiminum heldur geta þeir líka lesið út úr því hvert tækniheimurinn er að stefna og eiga þess vegna auðveldara með að búa til sínar eigin gullnámur. Ég var á vinnuráðstefnu viðskipta- og hagfræðinga nýlega og tók þar þátt í skemmtilegum umræðum um nýsköpun og fjölgun starfa. Þar tók ég upp þetta atriði um nauðsyn þess að leiða saman tækni- og viðskiptaþekkingu til að auka líkurnar á að til verði lífvænleg sprotafyrirtæki. Í Finnlandi er samstarf háskóla og atvinnulífs mjög náið og vinna háskólar oft að mikilvægum vöru- og tækniþróunarverkefnum með fyrirtækjum og njóta báðir góðs af því. Finnar hafa með þessu móti þróast mikið í átt að hátækniþekkingu og gert úr því fjölda gróðarvænlegra fyrirtækja.

Mig langar að minnast á einn tengslavef varðandi tækni og viðskiptakunnáttu. Vefur sem heitir LinkedIn þar sem fólk sem þekkir hvert annað tengist líkt og á Facebook og MySpace en á öðrum forsendum. Þessi vefur er fókusaður á faglega menntun og reynslu og þar eru margir hópar sem einbeita sér að ákveðnum sviðum s.s. nýsköpun, ljósmyndun og fleira. Þarna ættu margir að finna faghópa sem þeir geta tengst og fundið þar fólk sem eru í svipuðum pælingum.

Það er ekki hægt að fjalla um þetta án þess að minnast á Nýsköpunarmiðstöð Íslands (NMÍ). Á heimasíðu hennar www.nmi.is er mikill fróðleikur um hvernig er hægt að koma viðskiptahugmyndum í framkvæmd ásamt vinnuskjölum og ýmsu öðru gagnlegu. Starfsfólk NMÍ veita viðskiptalega aðstoð við að koma hugmyndinni af stað, búa til viðskiptaáætlun og veita ráðgjöf um eitt og annað viðskiptalegs eðlis. Það er greitt af ríkinu. Hins vegar er hægt að fá tæknilega aðstoð en það er útseld vinna. Þeir leysa það vandamál með því að frumkvöðullinn sækir um styrki til ýmissa sjóða, aðallega tækniþróunarsjóð, sem styrkir þróunarstarf nýrra hugmynda um allt að 50%.

Mikilvægi þess að leiða saman tækni- og viðskiptaþekkingu ætti öllum að vera ljóst en spurningin er hvort nóg er gert. Í aðstæðum sem íslenska þjóðin býr við núna er mikilvægt að yfirvöld og jafnvel einstaklingar skoði ætíð hvernig hægt er að örva samspil þessa mikilvægu þátta í nýsköpunarferlinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband