Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Iðnþing 2009 - upptaka

Hægt er að sjá af vef Samtaka Iðnaðarins upptöku af Iðnþingi þar sem efnahagsmálin voru til umræðu og bar yfirskriftina Vöxtur og Verðmæti - Mótum eigin framtíð.

Umsóknarfrestur Nýsköpunarsjóðs Námsmanna

Umsóknarfrestur Nýsköpunarsjóðs Námsmanna fyrir árið 2009 rennur út mánudaginn 16.mars kl 17:00. Nánar á vef Rannís


Going global with your business

Vil benda á áhugaverðan fyrirlestur í Háskólanum í Reykjavík mánudaginn 16.mars kl 12:00. Þar fjallar Richard M. Brandt um sex lykilþætti árangurs í stofnun alþjóðlegra fyrirtækja. Nánar á á vef skólans www.ru.is


Vantar þig fleiri hugmyndir

Ég ekki enn hitt þá manneskju sem vantar ekki góða hugmynd. En hvernig getum við fengið hugmynd? Rómantískar hugmyndir um sköpunarkraft gengur út á eins konar innsæi, að fá hugmyndir sé einhverns konar hæfileiki sem er meðfæddur og gengur jafnvel í erfðir eða að láta hugann reika stjórnlaust þangað til hugmyndinni slær niður í huga okkar. Rannsóknir hafa hins vegar sýnt fram á að allir geta fengið góðar hugmyndir og það er ekki háð innsæi heldur ákveðinu vinnuferli. Stundum meðvitað ferli og stundum ómeðvitað en það að fá hugmynd er engu að síðu háð ákveðnu vinnuferli. Ferlið að fá hugmynd er einfalt og það er ekkert sem er yfirnáttúrulegt við það eða það bundið við snilligáfu. Það er hægt að læra það og þjálfa það. Það er jafn raunverulegt ferli og að góð líkamsrækt eykur líkamlegt atgervi. Þetta ferli er hægt að skipta í 5 skref.

Skref 1 er að safna upplýsingum um það verkefni sem vinna á að. Ef það á að þróa nýja vöru þarf að vinna upplýsingar um þau verkefni sem hún á að leysa og það sem hún er búin til úr. Það eru sérfræðiupplýsingar sem lýtur að vörunni sjálfri og allt í kringum hana sem nauðsynlegt er að vita til að hægt sé að þróa hana. Efnafræðiþekking málningar og flatarins sem hún á að fara á og annað í þeim dúr. Besta skilgreining sem ég hef heyrt og er hjartanlega sammála er komin frá James Webb Young, “hugmynd er hvorki meira né minna en ný uppröðun á gömlum þáttum”. R. Keith Sawyer lýsir því í bók sinni Explaining Creativity hvernig þekking er órjúfanlegur þáttur nýsköpunar. Ef við veltum skilgreiningu Young fyrir okkur þá kemur það heim og saman við rannsóknir sem Young styður sig við þar sem hugmynd er ný uppröðun á þeirri þekkingu sem við höfum fyrir. Ef við vitum ekkert um málningu og efnafræði er ólíklegt að við fengjum margar hugmyndir um málningu. Það er því mikilvægt að afla sér sérfræðiþekkingar um það sem er verið að vinna að ef hugmyndavinnan á að ganga vel. En sérfræðiþekking er ekki nóg, það er líka mikilvægt að hafa góða almenna þekkingu. Leikni í að sjá tengingu milli einnar þekkingar við aðra er forsenda nýrra hugmynda. Post it miðarnir var upphaflega misheppnað vöruþróunarverkefni á lími sem Dr Spencer Silver var ábyrgur fyrir. En límið virkaði ekki sem skildi, það hélt ekki nógu vel. Ef ekki hefði verið fyrir Art Fry sem var í kirkjukór og datt í hug að það væri hægt að halda bókamerkinu í sálmabókinni með líminu að Post-it miðarnir urðu til. Sérfræðiþekking Silver á lími og almenna þekking Fry varð til þess að þessir merkilegu miðar eru til í dag.

Skref 2. Þegar búið er að afla þekkingar um viðfangsefnið þarf að vinna með þessar upplýsingar til að örva heilann. Hér þarf að sökkva sér djúpt í þær upplýsingar sem er búið að afla og velta þeim fyrir sér á alla mögulega vegu. Leytaðu eftir þýðingu þeirra upplýsinga sem er verið að skoða ekki einungis staðreyndum. Leytaðu eftir tengingu milli upplýsinga líkt og um pússluspil væri að ræða. Þetta stimplar upplýsingarnar inn í hugann og fær hann til að hugsa um þær og vega þær og meta.

Skref 3. Þegar hugurinn fer að vinna frekar með þessar upplýsingar notar hann þekkingu sem fékkst úr skrefi 2. Þetta er tíminn þegar hugurinn útfærir upplýsingarnar nánar og raðar þeim upp í rökréttari röð. Á þessu stigi þarf að gefa huganum algjöra hvíld frá meðvituðum hugsunum um viðfangsefnið. Það gæti verið gott að gera eitthvað sem örvar ímyndunaraflið og tilfinningalífið og fær hugann til að reika um. Listasýning, leikhúsferð, sinfóníutónleikar og annað sem kemur ímyndaraflinu af stað gerir það að verkum að meðvitundin leytar frá viðfangsefninu en heildræna hugsunin sem á sér stað í undirmeðvitundinni heldur áfram að pússla saman þekkingu eins og um pússluspil væri að ræða. Ef hann finnur svo tengingu færumst við á skref 4.

Skref 4 er þegar hugmyndin fæðist. Það er AHA augnablikið. Oft kemur þetta augnablik þegar hugmyndinni lýstur í okkur þegar við erum að gera eitthvað allt annað en að hugsa um viðkomandi viðfangsefni. Þú skalt samt ekki búast við að fá hugmyndina sem bjargar heiminum. Rannsóknir hafa sýnt að stórar uppgötvanir eru röð af minni uppgötvunum sem byggja hver á annari og úr verður mikilvæg þekking. Edisson fékk ekki allt í einu hugmyndina að ljósaperunni meðan hann var að vaska upp. Ljósaperan er búin til úr mörgum uppfinningum sem voru að koma fram á þeim tíma og var framlag margra. Edisson skildi þýðingu þessara uppgötvana og hafði sjálfur 12 manna teymi í vinnu hjá sér til að rannsaka og þróa vörur m.a. ljósaperuna. Upp úr öllum þessum hugmyndum, rannóknum og uppgötvunum varð svo ljósaperan til. Lausnin að því að sigra heiminn liggur ekki endilega í því að fá hina fullkomnu hugmynd heldur að vera stöðugt að fá hugmyndir sem samansafnað verður að mikilvægri uppgötvun. Æfingin skapar meistarann í þessu eins og öðru.

Skref 5. Hugmyndir fæðast ekki fullskapaðar. Oftast eru þær fæddar í draumaheimi á bleiku skýi og það þarf að útfæra þær nánar og þróa þær ef það á að hagnýta þær. Hugmynd sem er ekki komið í framkvæmd er lítils virði. Það gildir um nýjar vörur svo kölluð 111 regla. Það er gefið eitt stig fyrir að fá hugmynd, 10 stig fyrir að þróa hana og 100 stig fyrir að ná að markaðssetja hana. Það er svolítill sannleikur í þessum mismun á stærðum varðandi nýsköpunarhugmyndir. Ég hef heyrt fjöldann allan af fólki sem er með frábærar hugmyndir en framkvæmir þær aldrei. Síðan sér maður kannski löngu seinna að einhver annar hefur fengið sömu hugmynd og komið henni i framkvæmd. En sá sem upphaflega fékk hana fær ekkert fyrir sinn snúð því hann kom henni ekki í framkvæmd. Félagi minn er gangandi uppfinningakista en eins og það virðist honum eðlislægt að fá góðar hugmyndir virðist vera honum ómögulegt að koma þeim í framkvæmd. Um leið og hann byrjar á einni hugmynd fær hann aðra sem grípur athygli hans og þannig verður aldrei neitt úr neinni þeirra.

Þessi aðferð til að örva hugmyndasköpun er margreynd og virkar vel og er studd af rannsóknum. Það að fá hugmyndir er ekki eins dularfullt eða háð innsæi og margir halda. Það er fyrst og fremst hörkuvinna eftir ákveðnu ferli sem þarf að inna af hendi til að fá fleiri og betri hugmyndir. Ef þú fylgir þessu ferli meðvitað áttu eftir að fá fleiri og betri hugmyndir.


Nýsköpunarþing 2009

Ætla að minna Nýsköpunarþing 2009 á vegum Rannís, Nýsköpunarmiðstöðvar og Útflutningsráðs á morgun, þriðjudag milli 8-10. Þar verður áherslan á opna nýsköpun sem er mjög áhugaverður vinkill á nýsköpun og eitthvað sem öll fyrirtæki ættu að fræðast um í nútíma viðskiptaumhverfi.

Hægt að skrá sig hér


Frumkvöðlar verða að þola mótlæti

Þegar ég átti leið í íþróttahúsið um daginn voru ungir drengir að spila þar knattspyrnu. Einn keppandinn dró athygli mína að sér þar sem hann lét sig vaða óhikað í þvögu leikmanna á eftir boltanum. Það kostaði hann vænt spark í fæturnar og skall hann harkalega í gólfið og uppskar marbletti og skrámur. Eftir byltuna stóð hann upp og varð enn ákveðnari en áður að ná til boltans. Hugarfar íþróttamannsins er honum nauðsynlegt ef hann á að ná árangri og það sama gildir um frumkvöðla, áður en þeir ná árangri eiga þeir eftir að lenda í margs konar mótlæti og þurfa að ryðja hindrunum úr vegi.

Abraham Lincoln, 16. forseti Bandaríkjanna þurfti að ganga í gegnum ýmislegt á sinni ævi en náði árangri með óbilandi trú á sjálfum sér og með því að gefast ekki upp sama á hverju gekk. Þegar hann var 8 ára misstu foreldrar hans bændabýli sitt og þurftu að flytja. Árið eftir þegar hann var 9 ára dó móðir hans og hann fjarlægðist föður sinn. Faðir hans var ómenntaður og formleg menntun Lincolns sjálfs taldi 18 mánuði. Engu að síður öðlaðist hann lögmannsréttindi 1837 enda var hann mikill lestrarhestur. Hann eignaðist 4 börn en þau dóu öll nema eitt áður en þau náðu fullorðinsárum. Hann missti fyrstu kærustu sína úr taugaveiki og sú næsta neitaði honum þegar hann bað hennar. Lincoln var feiminn og klaufalegur í nánum samskiptum en er engu að síður þekktastur fyrir mælsku sína. Hann þjáðist af alvarlegum sjúkdómi alla sína æfi sem hafði áhrif á líkamsburði hans og í ljósi alls þessa er ekki skrýtið að hann hafi átt við þunglyndi að stríða. Hann tapaði kosningum til ríkisþings Illinois 1832, tapaði kosningum til varaforseta Repúblikaflokksins 1856. Hann fékk mikla gagnrýni úr ýmsum áttum af eigin fólki í þrælastríðun, þeir sem vildu binda enda á stríðið gagnrýndu hann fyrir einstrengingslega andstöðu gegn þrælahaldi og þeir sem voru á móti þrælahaldi gagnrýndu hann fyrir að ganga ekki harðar fram í að banna þrælahald. Þrátt fyrir allt mótlætið og gagnrýnina hélt Lincoln áfram markmiðum sínum, varð forseti og leiddi þjóðina í gegnum þrælastríðið og afnám þrælahalds í Bandaríkjunum. Nú er hann talinn einn mesti forseti í sögu Bandaríkjanna.

Lincoln fékk ósjaldan að heyra að hann væri á rangri leið og eitt og annað væri ómögulegt en þrátt fyrir stöðuga gagnrýni hélt hann áfram. Frumkvöðlar lenda í alls kyns mótlæti og fá ósjaldan óvægna og jafnvel ósanngjarna gagnrýni, jafnvel frá sínum nánustu. Þetta er galin hugmynd, þú hlýtur að hafa dottið á hausinn, ef þetta er svona sniðugt af hverju hefur þá enginn prófað þetta áður og annað í þeim dúr. Á leið til árangurs er þetta ein af þeim hindrunum sem þarf að fara í gegnum, eins konar eldraun frumkvöðulsins. Og ef honum tekst ætlunarverk sitt segja þessir sömu aðilar e.t.v. að þetta er nú kannski ágætt en ef ég hefði fengið að ráða hefði ég farið aðra leið. Seiglan, að komast í gegnum þessar árásir, oft eigin vina og fjölskyldumeðlima er lykilatriði í árangri frumkvöðla.

Frumkvöðlar fá skilaboð um að hugmyndir þeirra séu ekki góðar og það er einungis hluti af því að gerast frumkvöðull. Það er ekkert persónulegt, þeir sem gera hlutina öðruvísi en viðtekin venja segir til um fá á sig gagnrýni, sagan er uppfull af sögum um slíkt. Galileó varð fyrir ofsóknum, Sókrates var dæmdur og Charlie Chaplin þurfti að flýja land. Ef við ætlum að gera hlutina öðruvísi en aðrir verðum við að vera tilbúin að standast óvægna gagnrýni og standa með sannfæringu okkar, kasta okkur á boltann eins og ungi knattspyrnumaðurinn og vera tilbúin að taka á móti nokkrum spörkum.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband