Frumkvöðlar verða að þola mótlæti

Þegar ég átti leið í íþróttahúsið um daginn voru ungir drengir að spila þar knattspyrnu. Einn keppandinn dró athygli mína að sér þar sem hann lét sig vaða óhikað í þvögu leikmanna á eftir boltanum. Það kostaði hann vænt spark í fæturnar og skall hann harkalega í gólfið og uppskar marbletti og skrámur. Eftir byltuna stóð hann upp og varð enn ákveðnari en áður að ná til boltans. Hugarfar íþróttamannsins er honum nauðsynlegt ef hann á að ná árangri og það sama gildir um frumkvöðla, áður en þeir ná árangri eiga þeir eftir að lenda í margs konar mótlæti og þurfa að ryðja hindrunum úr vegi.

Abraham Lincoln, 16. forseti Bandaríkjanna þurfti að ganga í gegnum ýmislegt á sinni ævi en náði árangri með óbilandi trú á sjálfum sér og með því að gefast ekki upp sama á hverju gekk. Þegar hann var 8 ára misstu foreldrar hans bændabýli sitt og þurftu að flytja. Árið eftir þegar hann var 9 ára dó móðir hans og hann fjarlægðist föður sinn. Faðir hans var ómenntaður og formleg menntun Lincolns sjálfs taldi 18 mánuði. Engu að síður öðlaðist hann lögmannsréttindi 1837 enda var hann mikill lestrarhestur. Hann eignaðist 4 börn en þau dóu öll nema eitt áður en þau náðu fullorðinsárum. Hann missti fyrstu kærustu sína úr taugaveiki og sú næsta neitaði honum þegar hann bað hennar. Lincoln var feiminn og klaufalegur í nánum samskiptum en er engu að síður þekktastur fyrir mælsku sína. Hann þjáðist af alvarlegum sjúkdómi alla sína æfi sem hafði áhrif á líkamsburði hans og í ljósi alls þessa er ekki skrýtið að hann hafi átt við þunglyndi að stríða. Hann tapaði kosningum til ríkisþings Illinois 1832, tapaði kosningum til varaforseta Repúblikaflokksins 1856. Hann fékk mikla gagnrýni úr ýmsum áttum af eigin fólki í þrælastríðun, þeir sem vildu binda enda á stríðið gagnrýndu hann fyrir einstrengingslega andstöðu gegn þrælahaldi og þeir sem voru á móti þrælahaldi gagnrýndu hann fyrir að ganga ekki harðar fram í að banna þrælahald. Þrátt fyrir allt mótlætið og gagnrýnina hélt Lincoln áfram markmiðum sínum, varð forseti og leiddi þjóðina í gegnum þrælastríðið og afnám þrælahalds í Bandaríkjunum. Nú er hann talinn einn mesti forseti í sögu Bandaríkjanna.

Lincoln fékk ósjaldan að heyra að hann væri á rangri leið og eitt og annað væri ómögulegt en þrátt fyrir stöðuga gagnrýni hélt hann áfram. Frumkvöðlar lenda í alls kyns mótlæti og fá ósjaldan óvægna og jafnvel ósanngjarna gagnrýni, jafnvel frá sínum nánustu. Þetta er galin hugmynd, þú hlýtur að hafa dottið á hausinn, ef þetta er svona sniðugt af hverju hefur þá enginn prófað þetta áður og annað í þeim dúr. Á leið til árangurs er þetta ein af þeim hindrunum sem þarf að fara í gegnum, eins konar eldraun frumkvöðulsins. Og ef honum tekst ætlunarverk sitt segja þessir sömu aðilar e.t.v. að þetta er nú kannski ágætt en ef ég hefði fengið að ráða hefði ég farið aðra leið. Seiglan, að komast í gegnum þessar árásir, oft eigin vina og fjölskyldumeðlima er lykilatriði í árangri frumkvöðla.

Frumkvöðlar fá skilaboð um að hugmyndir þeirra séu ekki góðar og það er einungis hluti af því að gerast frumkvöðull. Það er ekkert persónulegt, þeir sem gera hlutina öðruvísi en viðtekin venja segir til um fá á sig gagnrýni, sagan er uppfull af sögum um slíkt. Galileó varð fyrir ofsóknum, Sókrates var dæmdur og Charlie Chaplin þurfti að flýja land. Ef við ætlum að gera hlutina öðruvísi en aðrir verðum við að vera tilbúin að standast óvægna gagnrýni og standa með sannfæringu okkar, kasta okkur á boltann eins og ungi knattspyrnumaðurinn og vera tilbúin að taka á móti nokkrum spörkum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mjög góður pistill og sannur Steinn minn

kv Sara

sara (IP-tala skráð) 8.3.2009 kl. 17:35

2 Smámynd: Steinn Hafliðason

Þakka hrósið Sara

bið að heilsa

Steinn

Steinn Hafliðason, 8.3.2009 kl. 22:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband