Umsóknarfrestur Nýsköpunarsjóðs Námsmanna

Umsóknarfrestur Nýsköpunarsjóðs Námsmanna fyrir árið 2009 rennur út mánudaginn 16.mars kl 17:00. Nánar á vef Rannís


Going global with your business

Vil benda á áhugaverðan fyrirlestur í Háskólanum í Reykjavík mánudaginn 16.mars kl 12:00. Þar fjallar Richard M. Brandt um sex lykilþætti árangurs í stofnun alþjóðlegra fyrirtækja. Nánar á á vef skólans www.ru.is


Vantar þig fleiri hugmyndir

Ég ekki enn hitt þá manneskju sem vantar ekki góða hugmynd. En hvernig getum við fengið hugmynd? Rómantískar hugmyndir um sköpunarkraft gengur út á eins konar innsæi, að fá hugmyndir sé einhverns konar hæfileiki sem er meðfæddur og gengur jafnvel í erfðir eða að láta hugann reika stjórnlaust þangað til hugmyndinni slær niður í huga okkar. Rannsóknir hafa hins vegar sýnt fram á að allir geta fengið góðar hugmyndir og það er ekki háð innsæi heldur ákveðinu vinnuferli. Stundum meðvitað ferli og stundum ómeðvitað en það að fá hugmynd er engu að síðu háð ákveðnu vinnuferli. Ferlið að fá hugmynd er einfalt og það er ekkert sem er yfirnáttúrulegt við það eða það bundið við snilligáfu. Það er hægt að læra það og þjálfa það. Það er jafn raunverulegt ferli og að góð líkamsrækt eykur líkamlegt atgervi. Þetta ferli er hægt að skipta í 5 skref.

Skref 1 er að safna upplýsingum um það verkefni sem vinna á að. Ef það á að þróa nýja vöru þarf að vinna upplýsingar um þau verkefni sem hún á að leysa og það sem hún er búin til úr. Það eru sérfræðiupplýsingar sem lýtur að vörunni sjálfri og allt í kringum hana sem nauðsynlegt er að vita til að hægt sé að þróa hana. Efnafræðiþekking málningar og flatarins sem hún á að fara á og annað í þeim dúr. Besta skilgreining sem ég hef heyrt og er hjartanlega sammála er komin frá James Webb Young, “hugmynd er hvorki meira né minna en ný uppröðun á gömlum þáttum”. R. Keith Sawyer lýsir því í bók sinni Explaining Creativity hvernig þekking er órjúfanlegur þáttur nýsköpunar. Ef við veltum skilgreiningu Young fyrir okkur þá kemur það heim og saman við rannsóknir sem Young styður sig við þar sem hugmynd er ný uppröðun á þeirri þekkingu sem við höfum fyrir. Ef við vitum ekkert um málningu og efnafræði er ólíklegt að við fengjum margar hugmyndir um málningu. Það er því mikilvægt að afla sér sérfræðiþekkingar um það sem er verið að vinna að ef hugmyndavinnan á að ganga vel. En sérfræðiþekking er ekki nóg, það er líka mikilvægt að hafa góða almenna þekkingu. Leikni í að sjá tengingu milli einnar þekkingar við aðra er forsenda nýrra hugmynda. Post it miðarnir var upphaflega misheppnað vöruþróunarverkefni á lími sem Dr Spencer Silver var ábyrgur fyrir. En límið virkaði ekki sem skildi, það hélt ekki nógu vel. Ef ekki hefði verið fyrir Art Fry sem var í kirkjukór og datt í hug að það væri hægt að halda bókamerkinu í sálmabókinni með líminu að Post-it miðarnir urðu til. Sérfræðiþekking Silver á lími og almenna þekking Fry varð til þess að þessir merkilegu miðar eru til í dag.

Skref 2. Þegar búið er að afla þekkingar um viðfangsefnið þarf að vinna með þessar upplýsingar til að örva heilann. Hér þarf að sökkva sér djúpt í þær upplýsingar sem er búið að afla og velta þeim fyrir sér á alla mögulega vegu. Leytaðu eftir þýðingu þeirra upplýsinga sem er verið að skoða ekki einungis staðreyndum. Leytaðu eftir tengingu milli upplýsinga líkt og um pússluspil væri að ræða. Þetta stimplar upplýsingarnar inn í hugann og fær hann til að hugsa um þær og vega þær og meta.

Skref 3. Þegar hugurinn fer að vinna frekar með þessar upplýsingar notar hann þekkingu sem fékkst úr skrefi 2. Þetta er tíminn þegar hugurinn útfærir upplýsingarnar nánar og raðar þeim upp í rökréttari röð. Á þessu stigi þarf að gefa huganum algjöra hvíld frá meðvituðum hugsunum um viðfangsefnið. Það gæti verið gott að gera eitthvað sem örvar ímyndunaraflið og tilfinningalífið og fær hugann til að reika um. Listasýning, leikhúsferð, sinfóníutónleikar og annað sem kemur ímyndaraflinu af stað gerir það að verkum að meðvitundin leytar frá viðfangsefninu en heildræna hugsunin sem á sér stað í undirmeðvitundinni heldur áfram að pússla saman þekkingu eins og um pússluspil væri að ræða. Ef hann finnur svo tengingu færumst við á skref 4.

Skref 4 er þegar hugmyndin fæðist. Það er AHA augnablikið. Oft kemur þetta augnablik þegar hugmyndinni lýstur í okkur þegar við erum að gera eitthvað allt annað en að hugsa um viðkomandi viðfangsefni. Þú skalt samt ekki búast við að fá hugmyndina sem bjargar heiminum. Rannsóknir hafa sýnt að stórar uppgötvanir eru röð af minni uppgötvunum sem byggja hver á annari og úr verður mikilvæg þekking. Edisson fékk ekki allt í einu hugmyndina að ljósaperunni meðan hann var að vaska upp. Ljósaperan er búin til úr mörgum uppfinningum sem voru að koma fram á þeim tíma og var framlag margra. Edisson skildi þýðingu þessara uppgötvana og hafði sjálfur 12 manna teymi í vinnu hjá sér til að rannsaka og þróa vörur m.a. ljósaperuna. Upp úr öllum þessum hugmyndum, rannóknum og uppgötvunum varð svo ljósaperan til. Lausnin að því að sigra heiminn liggur ekki endilega í því að fá hina fullkomnu hugmynd heldur að vera stöðugt að fá hugmyndir sem samansafnað verður að mikilvægri uppgötvun. Æfingin skapar meistarann í þessu eins og öðru.

Skref 5. Hugmyndir fæðast ekki fullskapaðar. Oftast eru þær fæddar í draumaheimi á bleiku skýi og það þarf að útfæra þær nánar og þróa þær ef það á að hagnýta þær. Hugmynd sem er ekki komið í framkvæmd er lítils virði. Það gildir um nýjar vörur svo kölluð 111 regla. Það er gefið eitt stig fyrir að fá hugmynd, 10 stig fyrir að þróa hana og 100 stig fyrir að ná að markaðssetja hana. Það er svolítill sannleikur í þessum mismun á stærðum varðandi nýsköpunarhugmyndir. Ég hef heyrt fjöldann allan af fólki sem er með frábærar hugmyndir en framkvæmir þær aldrei. Síðan sér maður kannski löngu seinna að einhver annar hefur fengið sömu hugmynd og komið henni i framkvæmd. En sá sem upphaflega fékk hana fær ekkert fyrir sinn snúð því hann kom henni ekki í framkvæmd. Félagi minn er gangandi uppfinningakista en eins og það virðist honum eðlislægt að fá góðar hugmyndir virðist vera honum ómögulegt að koma þeim í framkvæmd. Um leið og hann byrjar á einni hugmynd fær hann aðra sem grípur athygli hans og þannig verður aldrei neitt úr neinni þeirra.

Þessi aðferð til að örva hugmyndasköpun er margreynd og virkar vel og er studd af rannsóknum. Það að fá hugmyndir er ekki eins dularfullt eða háð innsæi og margir halda. Það er fyrst og fremst hörkuvinna eftir ákveðnu ferli sem þarf að inna af hendi til að fá fleiri og betri hugmyndir. Ef þú fylgir þessu ferli meðvitað áttu eftir að fá fleiri og betri hugmyndir.


Nýsköpunarþing 2009

Ætla að minna Nýsköpunarþing 2009 á vegum Rannís, Nýsköpunarmiðstöðvar og Útflutningsráðs á morgun, þriðjudag milli 8-10. Þar verður áherslan á opna nýsköpun sem er mjög áhugaverður vinkill á nýsköpun og eitthvað sem öll fyrirtæki ættu að fræðast um í nútíma viðskiptaumhverfi.

Hægt að skrá sig hér


Frumkvöðlar verða að þola mótlæti

Þegar ég átti leið í íþróttahúsið um daginn voru ungir drengir að spila þar knattspyrnu. Einn keppandinn dró athygli mína að sér þar sem hann lét sig vaða óhikað í þvögu leikmanna á eftir boltanum. Það kostaði hann vænt spark í fæturnar og skall hann harkalega í gólfið og uppskar marbletti og skrámur. Eftir byltuna stóð hann upp og varð enn ákveðnari en áður að ná til boltans. Hugarfar íþróttamannsins er honum nauðsynlegt ef hann á að ná árangri og það sama gildir um frumkvöðla, áður en þeir ná árangri eiga þeir eftir að lenda í margs konar mótlæti og þurfa að ryðja hindrunum úr vegi.

Abraham Lincoln, 16. forseti Bandaríkjanna þurfti að ganga í gegnum ýmislegt á sinni ævi en náði árangri með óbilandi trú á sjálfum sér og með því að gefast ekki upp sama á hverju gekk. Þegar hann var 8 ára misstu foreldrar hans bændabýli sitt og þurftu að flytja. Árið eftir þegar hann var 9 ára dó móðir hans og hann fjarlægðist föður sinn. Faðir hans var ómenntaður og formleg menntun Lincolns sjálfs taldi 18 mánuði. Engu að síður öðlaðist hann lögmannsréttindi 1837 enda var hann mikill lestrarhestur. Hann eignaðist 4 börn en þau dóu öll nema eitt áður en þau náðu fullorðinsárum. Hann missti fyrstu kærustu sína úr taugaveiki og sú næsta neitaði honum þegar hann bað hennar. Lincoln var feiminn og klaufalegur í nánum samskiptum en er engu að síður þekktastur fyrir mælsku sína. Hann þjáðist af alvarlegum sjúkdómi alla sína æfi sem hafði áhrif á líkamsburði hans og í ljósi alls þessa er ekki skrýtið að hann hafi átt við þunglyndi að stríða. Hann tapaði kosningum til ríkisþings Illinois 1832, tapaði kosningum til varaforseta Repúblikaflokksins 1856. Hann fékk mikla gagnrýni úr ýmsum áttum af eigin fólki í þrælastríðun, þeir sem vildu binda enda á stríðið gagnrýndu hann fyrir einstrengingslega andstöðu gegn þrælahaldi og þeir sem voru á móti þrælahaldi gagnrýndu hann fyrir að ganga ekki harðar fram í að banna þrælahald. Þrátt fyrir allt mótlætið og gagnrýnina hélt Lincoln áfram markmiðum sínum, varð forseti og leiddi þjóðina í gegnum þrælastríðið og afnám þrælahalds í Bandaríkjunum. Nú er hann talinn einn mesti forseti í sögu Bandaríkjanna.

Lincoln fékk ósjaldan að heyra að hann væri á rangri leið og eitt og annað væri ómögulegt en þrátt fyrir stöðuga gagnrýni hélt hann áfram. Frumkvöðlar lenda í alls kyns mótlæti og fá ósjaldan óvægna og jafnvel ósanngjarna gagnrýni, jafnvel frá sínum nánustu. Þetta er galin hugmynd, þú hlýtur að hafa dottið á hausinn, ef þetta er svona sniðugt af hverju hefur þá enginn prófað þetta áður og annað í þeim dúr. Á leið til árangurs er þetta ein af þeim hindrunum sem þarf að fara í gegnum, eins konar eldraun frumkvöðulsins. Og ef honum tekst ætlunarverk sitt segja þessir sömu aðilar e.t.v. að þetta er nú kannski ágætt en ef ég hefði fengið að ráða hefði ég farið aðra leið. Seiglan, að komast í gegnum þessar árásir, oft eigin vina og fjölskyldumeðlima er lykilatriði í árangri frumkvöðla.

Frumkvöðlar fá skilaboð um að hugmyndir þeirra séu ekki góðar og það er einungis hluti af því að gerast frumkvöðull. Það er ekkert persónulegt, þeir sem gera hlutina öðruvísi en viðtekin venja segir til um fá á sig gagnrýni, sagan er uppfull af sögum um slíkt. Galileó varð fyrir ofsóknum, Sókrates var dæmdur og Charlie Chaplin þurfti að flýja land. Ef við ætlum að gera hlutina öðruvísi en aðrir verðum við að vera tilbúin að standast óvægna gagnrýni og standa með sannfæringu okkar, kasta okkur á boltann eins og ungi knattspyrnumaðurinn og vera tilbúin að taka á móti nokkrum spörkum.


Djúpborunarverkefnið

Mannfjöldi jarðar nálgast nú 7 milljarða. Fyrir 10 árum var mannfjöldinn um 6 milljarðar og hefur mannkyni því fjölgað um milljarð á einungis 10 árum. Þessi gríðarlega mannfjölgun eykur álag á auðlindir jarðar og gerir það að verkum að krafan um styttri endurvinnslutíma þ.e. þann tíma sem tekur að endurnýja hana eykst. Tæknin verður að geta nýtt auðlindirnar á betri hátt og áður og með auknum hraða. Í dag er stærstur hluti orkuauðlinda heimsins ekki endurnýtanlegur s.s. olía, kol og gas. Á endanum hljóta þessar orkuauðlindir að klárast og því er nauðsynlegt að afla nýrra endurnýtanlegra orkuauðlinda áður en skortur fer að gera vart við sig. Orkuöflun til lengri tíma og reyndar nýting auðlinda almennt sama hvaða nafni þau heita hlýtur að þurfa að byggjast á endurnýtanlegum auðlindum því annars mun auðlindin alltaf á endanum ganga til þurrðar.

Ýmsar hugmyndir eru uppi um hver sé framtíðarorkugjafi heimsins. Núverandi tækni og kostnaður gerir það þó að verkum að flestar þessara hugmynda séu illframkvæmanlegar eða afli ekki nægrar orku fyrir allan heiminn. Það er t.d. ekki til endalausir möguleikar á vatnsaflsvirkjunum þó að það sé einna umhverfisvænasti og ódýrasta endurnýjanlega orkuframleiðsla sem völ er á um þessar mundir.

Ég hef heyrt fræðimenn halda því fram að eina leiðin til að uppfylla þörf mannskyns í orkumálum sé að bora ofaní jörðina. Þar er nánast ótakmörkuð orka og við íslendingar erum svo heppnir að sitja ofan á einum af þeim stöðum þar sem þessi orka leytar upp á yfirborðið. Við sitjum því á risaorkugeymi og þurfum aðeins að búa til góða dælu til að dæla orkunni upp eins og bensíndæla ofan á bensíntanki.

Árið 2000 hófst samvinna Landsvirkjunar, Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitunnar í þeim tilgangi var hleypt af stað svo kölluðu djúpborunar verkefni (Iceland Deep Drilling Project). Tilgangur verkefnisins er að kanna hagkvæmni þess að vinna orku og jarðefni úr gufu í yfirmarks ástandi sem er allt að 10 sinnum auðugri af orku en venjuleg jarðgufa. Fyrstu holuna er áætlað ljúka við að bora á þessu ári við Kröflu og er áætlað að bora 4.500 metra djúpa holu en venjulegar jarðhitaholur á Íslandi eru um 2-3 km. Síðan verður borað á Hengilsvæðinu og á Reykjanesi. Ef allt gengur upp er áætlað að verkefninu ljúki árið 2015.

Mikill fjöldi vísindamanna um allan heim fylgjast með verkefninu og eru margar rannsóknir framkvæmdar um leið og verkefninu vindur fram enda er hér um einstak verkefni að ræða. Árið 2003 sendi Alþjóða Jarðhitafélagið (IGA) frá sér yfirlýsingu þess efnis að íslenska djúpborunarverkefnið sé þróaðasta jarðhitaverkefni heims og lykilverkefni í nýtingu jarðhita í framtíðinni. Verkefnið er og unnið í samvinnu við ýmis fyrirtæki og vísindastofnanir s.s. ÍSOR, VGK Hönnun, University of California, ENEL á Ítalíu og fjölda annara háskóla or rannsóknarstofnana.

Margar tæknilega áskoranir fylgja þessu verkefni. Áætlað er að gufan sem komi úr holunni verði á bilinu 450°C-600°C heit sem myndi gera holuna að heitustu háhitavinnsluholu í heimi og erfitt er að segja til um hvernig efnainnihald vökvans verður. Bent S. Einarsson forstjóri jarðborana telur að eitt af helstu tæknilegu úrlausnarefnum sé að koma fyrir fóðringum við þann hita og þrýsting sem er á þessu dýpi og steypa þær fastar. Talað er um að vatn finnist í þremur fösum, föstu efni þegar það er undir frostmarki, í vökvaformi og gufu yfir suðumarki. Gufan sem kemur upp úr djúpboruninni verður líklega í fjórða fasanum sem er gufa í yfirmarksástandi sem er 10 sinnum orkumeiri en venjuleg jarðgufa. Mörg vandamál eru því framundan sem þarf að leysa jafn óðum og þau koma upp enda mikil óvissa um hvernig aðstæður eiga eftir að skapa sem gerir verkefnið meira spennandi og fleytir þar með þekkingu íslendinga á jarðhita og nýtingu hans mjög áfram.

Hvernig sem verkefnið fer er ljóst að það á eftir að auka á þekkingu á jarðskorpunni og nýtingu jarðhita. Ef vel heppnast á það eftir að auka á sjálfbærni í orkuöflun og auka orkugetu endurnýtanlegra orkugjafa heimsins. Íslendingar eiga eftir að skapa sér forskot í jarðhitaþekkingu sem þeir geta bæði nýtt sér í betri nýtingu á eigin auðlindum og til útflutnings og fjárfestinga erlendis.

Heimildir:

www.isor.is

www.lv.is

www.si.is

www.iddp.is

www.samorka.is

www.jardboranir.is


Ársfundur Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands

Verður haldinn þriðjudaginn 3.mars á Nordica. Hér er linkur á tilkynninguna hjá Nýsköpunarmiðstöð.

Tengsl tækni- og viðskiptaþekkingar

Félagi minn, sem er tölvunarfræðingur, hafði samband við mig um daginn og var að kanna hvernig hægt væri að tengja saman viðskipta- og tækniþekkingu. Oft hafa frumkvöðlar ákveðna sérfræðiþekkingu s.s. tölvunarfræðingar, verkfræðingar, smiðir o.s.frv. en skortir viðskiptalega þekkingu til að koma hugmyndum sínum nægilega vel af stað. Það getur líka verið öfugt að fólk með viðskiptaþekkingu skorti tæknilega sérfræðiþekkingu til að geta komið hugmyndum sínum í framkvæmd.

Þekkt dæmi um þetta er ljósaperan og saga hennar en eins og allir vita er Edison skrifaður faðir hennar. Ljósaperan er þó ekki ein hugmynd eða uppfinning heldur röð uppfinninga og þróun þeirra sem leiðir af sér ljósaperuna. Það sem Edison, sem var einn af þeim sem tók þátt í þessari þróun, hafði umfram hina sem komu að þessum uppgötvunum var að hann skildi viðskiptalega þýðingu ljósaperunnar og var fljótur að nýta sér þekkingu annara og tryggja sér þannig einkarétt á ljósaperunni og búa til úr henni söluvöru. Nú er ég alls ekki að segja að Edisson hafi stolið hugmyndum annara heldur skildi hann viðskiptalega þýðingu þeirra uppfinninga sem voru að koma fram á þessum tíma til að búa til úr því viðskiptatækifæri rétt eins og Yahoo skildi þýðingu internetsins. Stórar hugmyndir eru sjaldnast eyland heldur byggja þær á þeim uppfinningum sem fyrir eru. Hann gat spunnið saman tækniþekkinguna og viðskiptaþekkinguna meðan margir kollegar hans voru uppteknir af uppfinningunni en minna af viðskiptalegri þýðingu þeirra eða höfðu ekki nægilega þekkingu til þess. Rannsóknir hafa líka sýnt að flest ný fyrirtæki eru stofnuð af fleiri en einum einstaklingum þar sem meiri þekking og reynsla er til staðar en hjá einstaklingum sem eiga erfiðara með að hafa víðfeðma þekkingu á mörgum sviðum. Það er því ekki síður mikilvægt fyrir þá sem hafa hagsmuni af öflugri nýsköpun s.s. stjórnvöld að leiða saman tækniþekkingu og viðskiptaþekkingu. Margir hafa góðar hugmyndir í kollinum en hafa ekki þekkingu eða getu til að koma þeim í framkvæmd. Rannsóknir hafa sýnt fram á að börn bænda eru líklegri til að verða frumkvöðlar (tækniþekking) en aðrir og þeir sem hafa unnið í framleiðslu (tækniþekking) og markaðssetningu (viðskiptaþekking) eða unnið í þeim geira sem þeir stofna ný fyrirtæki sín í (tækni- og/eða viðskiptaþekking) séu líklegri til að ná árangri en aðrir frumkvöðlar.

Sum fyrirtæki hafa gengið svo langt að búa til sérstakt viðskiptamódel sem laðar að sér frumkvöðla styðjast við opna nýsköpun (e. open innovation). Þau eru þá eins konar miðstöðvar þar sem einstaklingum og fyrirtækjum gefst kostur á að þróa eigin vörur með hjálp þess fyrirtækis sem notast við opið nýsköpunarmódel á einn eða annan hátt. Eitt af þessum fyrirtækjum er Google en auk þess að vera með framúrskarandi nýsköpunarteymi hafa þeir búið til vörur sem aðrir geta notað til að þróa eigin vörur. Google gerir sér grein fyrir því að hversu öflugt sem nýsköpunarteymi þess er kemur það aldrei til með að hafa við þeirri gríðarlegu nýsköpun sem allur heimurinn vinnur að hverju sinni. Þeir hafa því búið þannig um hnútana að vera nær nýsköpun heimsins með því að leyfa öðrum að tengjast vörum sínum og þróa eigin lausnir á grunni lausna sem Google hafa búið til. Google hefur því mun meiri yfirsýn hvað er að gerast í heiminum og hvert eftirspurnin er að þróast því ekki einu sinni vita þeir hvað er verið að þróa víða í heiminum heldur geta þeir líka lesið út úr því hvert tækniheimurinn er að stefna og eiga þess vegna auðveldara með að búa til sínar eigin gullnámur. Ég var á vinnuráðstefnu viðskipta- og hagfræðinga nýlega og tók þar þátt í skemmtilegum umræðum um nýsköpun og fjölgun starfa. Þar tók ég upp þetta atriði um nauðsyn þess að leiða saman tækni- og viðskiptaþekkingu til að auka líkurnar á að til verði lífvænleg sprotafyrirtæki. Í Finnlandi er samstarf háskóla og atvinnulífs mjög náið og vinna háskólar oft að mikilvægum vöru- og tækniþróunarverkefnum með fyrirtækjum og njóta báðir góðs af því. Finnar hafa með þessu móti þróast mikið í átt að hátækniþekkingu og gert úr því fjölda gróðarvænlegra fyrirtækja.

Mig langar að minnast á einn tengslavef varðandi tækni og viðskiptakunnáttu. Vefur sem heitir LinkedIn þar sem fólk sem þekkir hvert annað tengist líkt og á Facebook og MySpace en á öðrum forsendum. Þessi vefur er fókusaður á faglega menntun og reynslu og þar eru margir hópar sem einbeita sér að ákveðnum sviðum s.s. nýsköpun, ljósmyndun og fleira. Þarna ættu margir að finna faghópa sem þeir geta tengst og fundið þar fólk sem eru í svipuðum pælingum.

Það er ekki hægt að fjalla um þetta án þess að minnast á Nýsköpunarmiðstöð Íslands (NMÍ). Á heimasíðu hennar www.nmi.is er mikill fróðleikur um hvernig er hægt að koma viðskiptahugmyndum í framkvæmd ásamt vinnuskjölum og ýmsu öðru gagnlegu. Starfsfólk NMÍ veita viðskiptalega aðstoð við að koma hugmyndinni af stað, búa til viðskiptaáætlun og veita ráðgjöf um eitt og annað viðskiptalegs eðlis. Það er greitt af ríkinu. Hins vegar er hægt að fá tæknilega aðstoð en það er útseld vinna. Þeir leysa það vandamál með því að frumkvöðullinn sækir um styrki til ýmissa sjóða, aðallega tækniþróunarsjóð, sem styrkir þróunarstarf nýrra hugmynda um allt að 50%.

Mikilvægi þess að leiða saman tækni- og viðskiptaþekkingu ætti öllum að vera ljóst en spurningin er hvort nóg er gert. Í aðstæðum sem íslenska þjóðin býr við núna er mikilvægt að yfirvöld og jafnvel einstaklingar skoði ætíð hvernig hægt er að örva samspil þessa mikilvægu þátta í nýsköpunarferlinu.


Hvernig verða hugmyndir til

Fyrr á árum reyndu menn að finna heilastöðvar fyrir hæfileika fólks. Það var reynt að finna staði heilans sem voru ábyrgir fyrir ýmsum eiginleikum s.s. hvar ástin á uppruna sinn, hvaðan forvitni er stjórnað og hvar í heilanum var stöð fyrir stærð. Sumar af þessum tilraunum er broslegar nú þegar við vitum meira um starfsemi líkamans.

Það er ekki hægt að tala um neitt sem heitir hugmyndauppspretta í heilanum og ekki heldur að ákveðinn hluti heilans sé ábyrgur fyrir sköpunargáfu fólks. Það eru ekki til nein gen sem stjórna sköpunargáfu þar sem hún er í raun ferli í huganum sem á sér stað og krefst samstarf ýmissa heilastöðva. Það gætu verið einhver gen sem hafa áhrif á ákveðin skref í þessu ferli en ekkert gen sem lýtur beint að sköpunargáfu.

Það eru enn mýtur á kreiki í þessa átt og halda sumir fram að hægra heilahvelið stjórni hugmyndaauðgi. Í grófum dráttum má segja um heilahvelin að hægra heilahvelið sé ábyrgt fyrir skilning á ferlum sem lýtur að hröðum, flóknum, heildarmyndar og  því sem lýtur að rúmi. Vinstra heilahvelið er tengt því sem lýtur að tungumáli og línulegri hugsun. Það er því freistandi að draga þá ályktun að hægra heilahvelið sé ábyrgt fyrir því ferli að fá hugmynd. Rannsóknir hafa hins vegar sýnt fram á að það sé mikil einföldun að tengja sköpunargáfu við annað hvort heilahvelið heldur er þeir staðir heilans sem eru nauðsynlegir í sköpun dreifðir um hann allan. Til að fá hugmynd reynir á hluti eins og áhuga, innblástur, eftirtekt, mat á valkostum og fleira. Það hefur sýnt sig að virkar heilastöðvar í hugmyndaferli færast til eftir því sem sérfræðikunnátta viðkomandi verður betri. Sköpun getur því ekki byggst á einu geni eða verið algjörlega meðfæddur hæfileiki.

Ekki er hægt að segja að vísindasamfélagið skilji til hlýtar hvernig hugmyndir verða til en margir aðhyllast ferli sem samanstendur af fjórum skrefum.

Í upphafi er undirbúningsskrefið (e. preparation) þar sem söfnun gagna og upplýsinga er aflað, leytað að tengdum hugmyndum og hlustað á tillögur.

Næsta skref er gerjunarstigið (e. incubation) sem er tíminn milli þess sem upplýsinga er aflað þangað til hugmyndin verður að veruleika. Þetta er tíminn þar sem upplýsingarnar eru útfærðar nánar og hugurinn raðar þeim upp í rökréttari röð.

Þriðja skrefið er þegar hugmyndin verður að veruleika, aha augnablikið. Það má halda því fram að í raun fái hugurinn margar hugmyndir en hendi þeim sem ekki eru líklegar til árangurs og því komi þær hugmyndir aldrei upp á yfirborð meðvitundarinnar. Þannig sé heilinn að leika sér með upplýsingar og reynir að raða þeim upp á ótal vegu þar til úr verður hugmynd sem gæti gagnast okkur. Það má ímynda sér aðila sem er að pússla og reynir að raða líklegum stykkjum saman. Þegar stykki eiga ekki saman reynir hann við annað og svo framvegis þangað til hann finnur tvö stykki sem passa saman.

Að lokum fer fram eins konar mat á hugmyndinni. Eftir að hugmyndin er orðin að veruleika verður að meta hana. Sá sem vill komast til tunglsins og fær þá hugmynd að hoppa þangað myndi meta hana einskis virði þar sem það er ekki líklegt til árangurs. Ef hugmyndin er dæmd sem likleg til árangurs er hún útfærð nánar.

Það að fá hugmynd er ekki tengt neinu einu geni, heilastöð eða meðfæddum hæfileikum. Það er aðallega vinna sem tengist ýmsum þáttum sem við getum örvað m.a. þekkingarleyt, áhuga og dugnaði. Við fæðumst ekki sem snillingar hugmyndasmiðir, það er fengið með æfingu og vinnu rétt eins og íþróttamenn þurfa að æfa likamann til að ná árangri.


Nýsköpun byrjar á spurningu

Líf okkar snýst um venjur. Við vöknum á ákveðnum tíma dags, fáum okkur sama morgunmatinn og alltaf, horfum á sjónvarpsþáttinn okkar á kvöldin. Venjur gera okkur lífið auðvelt og auðvelda okkur að framkvæma meira á styttri tíma. Við getum framkvæmt hlutina án þess að hugsa og oft marga í einu og það sparar okkur orku. Án þess að fara eftir venjum yrði líf okkar óreglulegt og við kæmum ekki eins miklu verk. Árangur okkar yrði minni þar sem það færi mikil orka í hversdagslega hluti eins og að vakna og koma sér til vinnu.

En eins og venjur eru okkur nauðsynlegar eru þær líka okkar mestu hættur. Okkur hættir við að festast í fari venja sem áttu eitt sinn við en eru komnar langt út fyrir uppruna sinn og í staðinn fyrir að auðvelda okkur lífið eru þær farnar að halda aftur af okkur. Við höfum ekki þróast með umhverfinu og erum farin að synda á móti straumnum.Venjur eiga yfirleitt uppruna sinn í lausn sem eitt sinn átti við en þegar umhverfið breytist gleymist oft að spyrja spurningarinnar hvort lausnin sem við notumst við eigi ennþá við.

Eitt sinn hóf ég starf í verslun þar sem forveri minn var búinn að vera 19 ár við stjórnvölinn. Forverinn var frábær starfsmaður sem náði miklum árangri og tók ég við góðu búi. En á þessum vinnustað hafði skapast mikið af hefðum og venjum. Ein af þessum venjum sem hafði skapast var að söluupplýsingar búðarinnar voru handskrifaðar í ákveðna stílabók eftir vöruflokkum. En jafnframt voru þessar upplýsingar prentaðar út á hverjum degi!? Þegar ég spurði hver væri nauðsyn þess að handskrifa þetta í annari röð í stílabók var svarið að þetta væri biblían sem væri skoðuð til að skoða sölusöguna.

Einhvern tíman hafa þessar tölur verið fengnar með öðrum hætti og þær skrifaðar í bók en þegar tölvutæknin kom til skjalanna hefur gleymst að spyrja spurninga. Og þrátt fyrir augljósan tvíverknað var ég næstum rekinn fyrir að neita að fylgja þessari ævafornu hefð, fólk var ekki tilbúið að spyrja sig mikilvægra spurninga.Þegar lausnirnar eru ekki lengur í takt við umhverfið er kominn tími á spurningar. Þegar þú ert að gera sama hlutinn oftar en einu sinni er nauðsynlegt að spyrja sig af hverju. Ef aðrir eru að gera sambærilega hluti betur, hraðar eða ódýrar en þú er kominn tími til að spyrja. Það er nauðsynlegt að spyrja sig reglulega um hvort ekki séu til betri og fljótari leiðir til að ná settu marki.

Þó að okkur þykir augljóst að það á ekki við að handskrifa útprentaðar tölur til að viðhalda einhverjum venjum sjáum oft fólk sem gerir álíka hluti vegna þess að það festist í venjum hversdagsleikans og spyr ekki spurninga um réttlæti þeirra. Í verslunarstarfi mínu fór ég reglulega í frakkann, labbaði út á bílaplan og gekk inn eins og ég væri viðskiptavinur. Gekk svo í gegnum verslunina og lifði mig algjörlega inn í það hlutverk að ég væri viðskiptavinur. Oftast sá maður augljósa hluti sem viðskiptavinur sem maður sá ekki sem starfsmaður, maður var einfaldlega of niðursokkinn í eigin vinnu til að horfa á hana á hlutlausan hátt. Orðatiltækið glöggt er gests augað á því vel við.

Það er því nauðsynlegt að færa sig upp fyrir eigin venjur og reyna að horfa á daglegar venjur eða jafnvel þjóðfélagið og spyrja sig spurninga um réttlætingu þess sem er að gerast. Þá opnast oft ný og óvænt innsýn inn í fastmótaðan heim.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband